Beint í efni

Bókasafn föður míns - Sálumessa (samtíningur)

Bókasafn föður míns - Sálumessa (samtíningur)
Höfundur
Ragnar Helgi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

um bókina

Að föður sínum látnum þarf Ragnar Helgi að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns og finna því stað á 21. öldinni. Þótt hann einsetji sér í upphafi að opna ekki bækurnar og alls ekki fara að grúska, fær hann ekki við það ráðið.
   Við starfann kvikna minningar, hugleiðingar um bækur, menninguna, missi, fallvelti hluta, um liðna tíð og framtíðina – en ekki síður um samband föður og sonar og hvað skipti mestu máli í lífinu þegar upp er staðið.
   Bókasafn föður míns er falleg, fyndin, tregafull og íhugul frásögn um verðmætamat og tilfinningalíf sem í krafti stílgaldurs og einlægni hefur djúp áhrif á lesandann.

Úr bókinni

Að ljúka við að lesa bók eru nánast alltaf vonbrigði. Bækur standa ekki undir væntingum. Þá skiptir engu hversu vel þær eru skrifaðar, hversu listilega samansettar eða vel út gefnar. Skúffelsið er innbyggt í hlutinn sjálfan. Ég var ungur þegar ég gerði mér grein fyrir því að þegar ég byrjaði að lesa bók þá var það von um að á síðustu síðunni leyndust mikilvægar upplýsingar, óvænt svar, sem dró mig áfram. Ef ég stalst til að kíkja aftast mátti treysta því að ég læsi ekki miðkaflana. Ég las fram fyrir mig, áfram og inn í bækurnar. Eftir á að hyggja var drifkrafturinn líklega einhver sæmilega væg örvænting. Ég las með sömu aðferð og riddarar hringborðsins leituðu hins helga grals. Að lokum sá ég hvers kyns var, hætti að láta blekkjast af loforði bókarinnar og las enda lítið á unglingsárum, reyndar langt fram eftir aldri, og allra síst skáldskap. Lengi vel var heimspeki það eina sem ég nennti að lesa og á meðan ég stúderaði heimspeki var ég hreinlega líkamlega ófær um að lesa skáldsögur, að maður nefni nú ekki ljóð. Það er líklega ástæða þess að ég hef aldrei lesið Frú Bovary. Hún er hér í tveimur útgáfum: þýðingu Péturs Gunnarssonar frá 1995 og svo í útgáfu Ísafoldarprentsmiðju frá 1947, í íslenskun Skúla Bjarkan. Einu bókapersónurnar sem ég hef raunverulega getað tekið alvarlega eru þær í Íslendingasögunum, enda hefur mér, eins og mörgum mér fróðari mönnum, alltaf hugnast best sagnfestukenningin um þann bókaflokk.
   En þó ég hafi gert mér grein fyrir því að bók sé í eðli sínu brostið loforð, þá finn ég enn hvernig loforðið lokkar mig, eins og fylliraft að flösku. Bókasafn er þá eins og lykill að vínbúðinni fyrir þann sem veikur er fyrir sopanum.

(s. 81-83)

 

Fleira eftir sama höfund

Bréf frá Bútan

Lesa meira

Handbók um minni og gleymsku

Lesa meira

Tveir leikþættir: Ærslaleikur og gamanþáttur með harmrænu ívafi þó

Lesa meira

Denen zum Trost, die sich in ihrer Gegenwart nicht finden können: Lieder und Texte

Lesa meira

Lettres du Bhoutan

Lesa meira

La réunion du Conseil national de l'Audiovisuel du 14 mars 1984 et son influence formatrice sur la sexualité de l'adolescent : et autres histoires

Lesa meira

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar

Lesa meira

Laus blöð : ljóð & textar

Lesa meira