Beint í efni

Tveir leikþættir: Ærslaleikur og gamanþáttur með harmrænu ívafi þó

Tveir leikþættir: Ærslaleikur og gamanþáttur með harmrænu ívafi þó
Höfundur
Ragnar Helgi Ólafsson
Útgefandi
Tunglið
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Leikrit

um bókina

Bók þessi inniheldur tvo leikþætti, annar er ærslaleikur en hinn gamanstykki. Báðir eru þeir þó - því miður - með harmrænu ívafi.
   Persónurnar eru hugarburður og ekki nema í fáum tilfellum byggðar á raunverulegu fólki. Í þeim tilvikum hefur nöfnum verið breytt til að vernda einkalíf viðkomandi. Það er sjálfsögð krafa.
   Þegar ég stóð frammi fyrir því að velja hvert þeirra handrita, sem ég á í fórum mínum, skyldi næst búa til prentunar stóð valið á endanum á milli þessara leikþátta og safnrits með úrvali af flugubröndurum. Að endingu valdi ég þessa fram yfir safnritið. Sú ákvörðun verður ekki endurskoðuð úr þessu.
(RHÓ)

úR BÓKINNI

Maður: Sjálfur gekk ég í að endurlesa alla stóru hugsuðina sem skrifað hafa um efnið - risa heimspekinnar, sálfræðingana - allt til að geta af öryggi sinnt mannlega þættinum, það er að segja: samskiptunum við gestina.
   Frúin sér um kroppinn, ég um öndina. Þetta er verkaskipting: Líkami og sál, hold og heili - frúin og ég. Við þreytumst ekki á því að gantast með þetta.
   Auðvitað er hennar starf miklum mun tímafrekara en mitt. Það er í raun einungis fyrstu klukkutímana sem nýr gestur dvelur hjá okkur sem mikið mæðir á mér: Innritunin, spurningalistarnir - það er allt á minni könnu. Og svo er ég auðvitað hjá þeim þegar þeir eru að sofna. Það ætti enginn að sofna einn. Það er mín skoðun. Ég er harður á því.
   En svo, þegar gesturinn er sofnaður, nú, þá er hann sofnaður. Ekki mikið meira um það að segja. Einstaka maður talar upp úr svefni. Ég lít eftir þeim sem þannig er ástatt um, í hið minnsta fyrstu dagana, sit hjá þeim og hlusta - þeir eiga rétt á því að einhver hlusti. Ég er harður á því, þótt frúin grínist með að mínir hæfileikar felist nú frekar í því að tala en hlusta! En undantekningarlítið þagna allir eftir eina til tvær vikur „niðri", eins og við köllum það.

Kona: Mér þykir þér taka yður mikið vald, herra. Það er...

Maður: Nei, nei, ég snerti aldrei nálarnar - ég má það ekki! Það þarf hjúkrunarpróf til að mega fikta við slíkt. Það mætti nú minna dópistana á Rue Jubilé á það. Og lyfin? Þau eru öll viðurkennd, mörg fást meira að segja án lyfseðils. Þegar kúnnarnir eru á annað borð sofnaðir - komnir „niður" - þá hefur reynslan sýnt að það þarf ekki mikið magn til að halda þeim þar.
   Það er eins og líkamar gestanna vilji sofa. Kroppurinn veit best! Það þarf bara örlítið magn af rétta lyfinu og þá sofa þeir bara.
   Þetta eru mikil umskipti frá því sem áður var - þá kom fæstum dúr á auga undir þessu þaki. Lætin, þér skiljið. Nú er öldin önnur. Nú er hér meiri friður, oftast alveg hljótt - eins og í dauðs manns gröf flestar nætur - já, og flesta daga. Hér eru allir dagar nætur, ef þér skiljið hvað ég á við - dagur fyrir nótt - allir dagar „amerískar nætur", eins og þeir segja í kvikmyndabransanum.

(s. 31-32)

Fleira eftir sama höfund

Bréf frá Bútan

Lesa meira

Handbók um minni og gleymsku

Lesa meira

Bókasafn föður míns - Sálumessa (samtíningur)

Lesa meira

Denen zum Trost, die sich in ihrer Gegenwart nicht finden können: Lieder und Texte

Lesa meira

Lettres du Bhoutan

Lesa meira

La réunion du Conseil national de l'Audiovisuel du 14 mars 1984 et son influence formatrice sur la sexualité de l'adolescent : et autres histoires

Lesa meira

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar

Lesa meira

Laus blöð : ljóð & textar

Lesa meira