Beint í efni

Brotasaga

Brotasaga
Höfundur
Björn Th. Björnsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Skáldsögur

Úr Brotasögu:

Frá sumrinu sem nú fór í hönd er fátt um ljósa drætti í sögu Önnu Guðrúnar. Víst er þó að hún kom sér í saumanám og vinnu. Fólst hún aðallega í saumaskap á íslenzka búningnum, þó ekki á upphlut eða baldýringu, heldur vélsaum á kyrtlum og möttlum sem þá voru mjög að komast í móð. Af munnlegum heimildum, en óljósum þó, er helzt að ráða að hún hafi verið undir handarjaðri þeirrar kunnu saumakonu Emerensínu Þorkelsdóttur í Bankastræti 14. Af sömu heimild varð Anna brátt mjög lagin og mikilvirk í þessum starfa og hafði brátt af honum þær tekjur sem dugðu henni til allrar framfærslu og góðu herbergi upp af Grjótaþorpinu. Var hún nú í fyrsta sinni sjálfstæð og sjálfráð sinna gerða og ferða. Þeim mun varð hún Halldóri Runólfssyni torsóttari þegar hann tók að bera í hana víurnar, sjálfur orðinn verkstjóri og helzti útvegunarmaður James White, einkum við fiskkaup uppi á Skaga og suður með sjó, enda kominn með nýtt dingl á úrfestinni.
 Í áðurnefndu manntali er Halldór Diðrik Runólfsson, 36 ára gamall, talinn til húsa á Grettisgötu 7, aðkomandi frá Útskálum, sem lætur nærri um útvegunarflakk hans á þessu ári.

Anna Guðrún vandaði mjög allan klæðnað sinn þegar hún gekk um bæinn, komin í nýja aðsniðna kápu úr smáköflóttu skozku ullarefni sem hún hafði sjálf valið og keypt í Kvenfatadeildinni, en Emerensína saumað á hana af sinni list. Hún fór því síður en svo huldu höfði þegar hún gekk niður bakarabrekkuna og vestur Austurstræti, há og spengileg, og snerist margt höfuð ungra manna eftir henni þar sem hún fór.
 Hver var hún? Átti nokkur með hana? Hvað hét hún þessi stórglæsilega stúlka? Af hverju kom hún aldrei á böllin?

Einn var þó sá sem þóttist kunna á henni nánari skil en aðrir og ætlaði sér þau miklu nánari. Sá var Halldór Diðrik Runólfsson frá Auðkúlu, eða þó betur sagt frá Grjóta, þar sem hann fæddist og sleit barnsskónum. Margan daginn, þegar vel hafði legið á James og buddunni hans, valkókaði hann með útlenzka hattinn fyrir utan Bankastræti 14, og jafnvel með vindilsígar, en sorglega fátt varð þó úr orðaskiftum þegar hann hálfhljóp á eftir henni ofan brekkuna og yfir Lækjarbrúna.

(s. 61-62)

Fleira eftir sama höfund

Norræn málaralist: Expressionisminn ryður sér braut

Lesa meira

Brotasilfur

Lesa meira

Byltingarbörn

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, I

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, II

Lesa meira

Íslenzka teiknibókin í Árnasafni

Lesa meira

Íslenzkt gullsmíði

Lesa meira

Aldaslóð

Lesa meira

Aldateikn

Lesa meira