Beint í efni

Brotasilfur

Brotasilfur
Höfundur
Björn Th. Björnsson
Útgefandi
Heimskringla
Staður
Reykjavík
Ár
1955
Flokkur
Fræðibækur

Úr Brotasilfri:

Kvöld eitt á ýli

Hjá svörtum arninum stendur ungur piltur og snýr steik á teini. Sveifin er þung, en hann verður að snúa henni án afláts svo steikin sviðni ekki, og hann drepur fæti við hvern snúning. Inni er ys af röddum, hlátrar og blótsyrði, og þegar eldurinn grípur nýjan viðarlurk teygjast ljósfingur út um krána og speglast með rauðri glóð í fægðum eirkönnunum sem hanga í bjálkum loftsins. Ilmur af fersku öli og bruni af villibráð samlagast hér einhverjum fjarkomnum keimi úthafa og ævintýris. Hér inni er ekkert raunverulegt. Allir hlutir sem fyrir menn hafa borið taka hér á sig gljúpan blæ endurminningar, - smáir hlutir verða risavaxnir eins og í þoku, hversdagslegur grámi fær hér djúpan lit.

Hér koma sæfarar á kvöldum, segja frá sjóskrímslum og annarlegum veröldum, og aðrir, stundum bæklaðir menn, sem hafa strítt á Frakklandi með hertoganum af Warwick og séð galdranornina frá Orléans brennda á báli í Rúðuborg. Og enn koma hér aðrir sem hvergi eiga heima og tala ekkert tungumál. Skipshöfn eða málalið er þeirra ætt. Þetta er um haustið 1446, nær jólum.

Einn maður er hér inni, frábrugðinn öllum hinum. Hann ber hvorki fas sæfara né stríðsmanns, stórlimaður, hörkulegur, og þá sjaldan hann talar, segir hann snögg, útlend orð. Klæðnaður hans er fyrirmannlegur, en þó orðinn nokkuð forn: skinnbrydduð kápa með gildri hlekkjafesti um herðar og bringu, lágir leðurskór, támjóir, og silfurlindi undir hné. Undir kápunni ber hann pyngju við belti og geldur úr henni eins og konungur. Það sér á að hann er vanur að láta þjóna sér orðalaust.

Því mundu fáir trúa, sem sjá þennan mann hér inni, að hann sé útlægur af sínu ættlandi, svpitur ástvinum sínum, óðulum og eignum og öllu nema því sem hann hefur með sér í reiðu fé. Þó er það svo. Þegar silfur hans þrýtur liggja honum, rosknum manninum, engar leiðir nema tvær: smánarlegrar konungsmiskunnar eða stafkarls á þjóðbrautum í erlendu landi. Og þó er kannski sú þriðja: hefnd, grimmileg hefnd og uppreisn. Enn á hann yfrið nóg fé til þess að semja við enska duggara, - til þess að kaupa sér höfuðskeljar þeirra Einars og Björns á Skarði. Hann leikur sér við hugsunina, en trúir þó ekki á hana sjálfur.

Hann hefur teflt djarft, kúgað menn og beitt valdi, og skapferli hans stendur sízt af öllu til sjálfsaumkvunar. Og sem hann situr hér við snæðing og öl ráfar hugur hans fram og aftur, og öðru hvoru kiprar bros stálgrá augun.

Nafn hans er Guðmundur Arason. Fyrir nokkrum mánuðum var hann auðugastur allra manna á Íslandi, ef til vill auðugastur allra manna sem á Íslandi hafa verið. Nú situr hann hér í enskri hafnarborg, útlægur, og horfir á silfur sitt étast upp, rétt eins og kertin heima á altarinu á Reykhólum á löngum messum.

(7-8)

Fleira eftir sama höfund

Norræn málaralist: Expressionisminn ryður sér braut

Lesa meira

Brotasaga

Lesa meira

Byltingarbörn

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, I

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, II

Lesa meira

Íslenzka teiknibókin í Árnasafni

Lesa meira

Íslenzkt gullsmíði

Lesa meira

Aldaslóð

Lesa meira

Aldateikn

Lesa meira