Beint í efni

Dauði skógar

Dauði skógar
Höfundur
Jónas Reynir Gunnarsson
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Það hefur rignt linnulaust í marga daga þegar skógurinn rennur niður hlíðina og setur allt af stað í lífi landeigandans og fjölskylduföðurins Magnúsar. Litlu seinna koma sprengjurnar í ljós.

Dauði skógar er margræð saga um það þegar hversdagurinn fer á hvolf og dauðinn ber að dyrum. 

Úr bókinni

Stuttu eftir að afi dó byrjuðu mamma og pabbi að planta trjám. Þetta var annað dauðsfallið í fjölskyldunni á einni viku. Amma dó fyrst og þegar afi fór að dæmi hennar keypti pabbi trén. Þetta voru foreldrar hans sem kvöddu með svona stuttu millibili. Hlíðin var í landinu þeirra.
   Ég held mamma og pabbi hafi plantað þessum trjám til að komast yfir sálrænt áfall, svona eftir á að hyggja, eða til að dreifa huganum.
   Eitt sinn, þegar þau voru nýfarin að græða upp hlíðina, tylltu þau mér niður við berjaþúfu í von um að ég yrði til friðs. Ég var grátgjarnt barn en veikur fyrir berjum. Á meðan foreldrar mínir plöntuðu sat ég við þúfuna og hámaði í mig krækiberin. Þau eru að þar til sólin sest á bak við klettana, svo röltir pabbi til mín og spyr hvort einhver ber séu eftir handa honum. Þá hrekkur hann við. Ég er að háma í mig lambaspörð.
   Þetta var uppáhaldssaga pabba. Hún yljaði honum alltaf, minningin af mér að éta kindaskítinn. Hann hugsaði líka með hlýju til þessa tíma, býst ég við, þegar þau mamma voru upp á sitt besta, nýkomin með krakka og orðin sjálfstæð fyrir alvöru.
   Hún var hinsvegar ekki glöð, hún Herdís frænka mín, þegar hún frétti af uppátæki bróður síns, að hann væri byrjaður að setja niður lerki í landinu þeirra. Þau höfðu auglýst jörðina til sölu í heild sinni og salan nánast í höfn þegar pabbi ákvað að hann vildi halda hlíðinni eftir. Það flækti málin allverulega. Þegar systkinunum tókst loksins að ganga frá kaupunum voru þau hætt að talast við. Hestamaður að sunnan tók við bænum og bújörðinni, að undanskilinni hlíðinni. Pabbi þurfti að kaupa hana af Dísu. Hann þurfti að gefa ansi mikið eftir til að ná þessu í gegn og við enduðum á að selja húsið okkar, því á sama tíma var pabbi að byggja nýtt smíðaverkstæði. Hann henti sláttuvélinni þegar við fluttum í nýja húsið, sagði að hún væri óþörf í svona litlum garði. Í staðinn sló hann með ljánum hans afa. Það varð til þess að krakkarnir í þorpinu kölluðu hann manninn með ljáinn. Þeir kölluðu mig son dauðans.
   Ekki þótti manni þetta fyndið þá, ekki á þessum aldri. en þau töluðust ekki meira við, pabbi og Dísa. Hún dó úr krabbameini eftir að hún flutti suður.
   Ég flaug til Reykjavíkur til að heimsækja hana áður en hún dó. Ég kynntist Hildi í sömu ferð, en það er önnur saga. Ég fór á líknardeildina til Dísu og ætlaði ekki að þekkja hana. Það var eins og kjötið hefði verið fjarlægt úr líkamanum og húðin strekkt yfir beinin. Sérstaklega voru það augntóftirnar sem trufluðu mig. Það fór ekki milli mála að hún var dauðvona.
   Dísa spurði hvort pabbi kæmi ekki áður en hún færi. 
   Jú, sagði ég. Pabbi kemur.
   Hann er vonandi ekki fúll út í mig ennþá út af hlíðinni, sagði hún.
   Ég sagði henni að láta ekki svona, pabbi væri á leiðinni, auðvitað kæmi hann til hennar.
   Til að kveðja mig? spurði hún.
   Já, sagði ég hann kemur til að kveðja þig.
   Ég reyndi að forðast að horfa framan í hana. Hún skynjaði að ég væri að ljúga. Þegar ég manaði mig loks til að líta í augun á henni var eins og hún horfði í gegnum mig. Ætli ég hafi nokkurn tíma á ævinni orðið jafn hræddur.
   Þegar mamma dó má segja að skógurinn hafi orðið stjúpforeldri mitt. Pabbi eignaðist aldrei nýja konu, hann leyfði skóginum að fylla upp í plássið sem mamma hafði skilið eftir sig. Auðvitað var þetta ekki alvöru skógur í þeim skilningi, ekki á erlendan mælikvarða. Þetta var lítill landskiki með nokkrum trjám, en miðað við höfðatölu (tvær manneskjur: okkur pabba) mátti þetta teljast skógur, og það kölluðum við hann. Lengi vel voru plönturnar litlar og ég gat ekki ímyndað mér að þær yrðu nokkurn tíma alvöru tré. Ég var efins um að þær fengju næga næringu. En svo tóku þær vaxtarkipp. Ruku upp. Við pabbi fórum að grisja, gerðum göngustíga á milli trjánna og klipptum tvístofna tré til að bæta vöxt þeirra. Skógurinn tók að mótast og áður en ég vissi af voru trén orðin stærri en ég. Þetta varð þéttur en lítill lerkiskógur sem þó var hægt að villast í. Ekki ein af þessum handahófskenndu birkisamkomum sem sumir vilja kalla skóg, sagði pabbi, sem gat ekki lofsungið neitt án þess að tala eitthvað annað niður. Honum þótti lauftré best geymd í görðum.
   Af hverju plöntuðu þau ekki furum og greni líka? Þá spurningu bar á góma. Svarið við henni var að pabba þótti sígræn tré hrokafull. Þau eru að þykjast vera ódauðleg, sagði hann. Ég hugsa nú að þetta hafi verið eftiráskýring til að réttlæta einsleitni skógarins. En hann bar ákveðna virðingu fyrir lerki. Lerkitré búa yfir þrjósku og sjálfstæði, líkt og pabbi. Þau neita að haga sér eins og barrtré. Fella barrið á haustin og nálarnar eru svo mjúkar að réttara væri að tala um þær sem feld.
   Lerkinu dugði vel þessi grunni jarðvegur í hlíðinni. Trén urðu há og sver. Kannski of stór, ef maður hugsar um þungann sem hefur þurft til að draga alla brekkuna niður. Ég hugsa alltaf um mömmu í tengslum við pabba. Fyrir mér voru þau ein heild. Minningarnar, taugafrumutrén í heilanum á mér, hafa krækst saman. Ætli þetta sé ekki þannig með foreldra, að í huga manns er annað bara til í samhengi við hitt. En þegar ég hugsa um pabba flækist málið, því í lífi pabba var sambandið við skóginn lengsta hjónabandið. Það er ómögulegt að hugsa um pabba án þess að hugsa um skóginn, og um skóginn án þess að hugsa um pabba. Þeir voru eitt og sama fyrirbærið. Og alveg eins og með mömmu þurfti pabbi að horfa á eftir betri helmningnum deyja þegar skógurinn rann niður hlíðina. Hefði ég einhverju ráðið þá hefði pabbi dáið á undan.

(s. 14-17)

Fleira eftir sama höfund

kákasus-gerillinn

Kákasus-gerillinn

þessari óþægilegu tilfinningu sem alltaf er þarna í bakgrunninum
Lesa meira

Þvottadagur

Lesa meira

Krossfiskar

Lesa meira

Stór olíuskip

Lesa meira

Leiðarvísir um þorp

Lesa meira

Millilending

Lesa meira