Beint í efni

Og aftur deyr hún

Og aftur deyr hún
Höfundur
Ása Marin
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

„Fyrir sjö vikum stóð Þórkatla á sama stað. Horfði ofan í opna jörð og tók við faðmlögum. Heyrði huggunarorð án þess að hlusta og þakkaði fólki fyrir án þess að meina það. Horfði ofan í opna jörð á kistulok sem huldi það líf sem hún þekkti.“

Alda er látin. Hún virðist hafa framið sjálfsmorð en fólkið sem stendur henni næst á erfitt með að trúa því. Sagan fléttar saman líf nokkurra einstaklinga sem allir tengjast Öldu og hafa ólíka sýn á líf hennar og dauða.

Úr bókinni

Hraðsuðuketillinn vælir á sama tíma og beyglurnar hoppa upp úr brauðristinni, afrakstur áralangrar tímatöku. Vanar hendur smyrja og skella osti á beyglurnar og útbúa te samtímis. Útvarpið er lágt stillt og malið í fólkinu blandast við gólin í lítilli stúlku sem er úti að leika sér. Af öskrunum að dæma er þessi útivera ekki að ósk stúlkunnar. Þegar Rúna tyggur síðasta bitann ákveður hún að kíkja í heimsókn til vinkonu sinnar. Engar líkur eru á að Alda sé heima en Rúna nýtir tækifærið, vitandi að einn daginn taka foreldrar Öldu sig til, rýma íbúðina og selja.
   Rúna opnar útidyrnar, koldaleg gola fagnar henni og hún teygir sig í ullarpeysu áður en hún lokar á eftir sér og læsir. Hún gengur í rólegheitunum enda er enginn sem bíður hennar á áfangastað. Hér áður gekk hún leiðina rösklega. Stundum hljóp hún í ofvæni vegna frétta sem þær gátu ekki borið á milli í gegnum síma. Hún gæti gengið þessa leið blindandi. Hafði í raun gert það einu sinni þegar hún hljóp yfir og sá ekki út úr augunum vegna tára.
   Inni í herbergi Öldu er allt óbreytt. Sömu rúmföt, sama bókin á náttborðinu og fötin hennar enn inni í skáp. Aðeins hér getur Rúna hjúfrað sig upp að vinkonu sinni. Einn dag verður þessi nánd líka tekin frá henni. Hún opnar fataskápinn, tekur út uppáhaldspeysu Öldu og þefar. Lyktin af Öldu er að fjara út. Hún tekur aðra peysu og enn aðra þar til allar peysurnar liggja á rúminu, skápalykt er að búa um sig. Hún sest á rúmið og lætur það eftir sér að gráta, hún gerir það svo sjaldan. Brýtur peysurnar síðan saman og leggur þær aftur snyrtilega inn í skáp.
   Þegar hún er við það að loka skápnum sér hún glitta í rauða ól. Kunnuglegt. Hún sækir stól og tekur skíðabuxur, ullarpeysu og ullarnærföt niður úr skápnum og þar falinn á bak við liggur hann, innst í hillunni; rauði bakpokinn hennar Öldu sem hún notaði í menntaskólanum.

(s. 22-23)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Bláar dyr

Lesa meira

Búmerang

Lesa meira

Að jörðu

Lesa meira

Vegur vindsins

Lesa meira

Yfir hálfan hnöttinn

Lesa meira

Elsku sólir

Lesa meira