Beint í efni

Saga af stúlku

Saga af stúlku
Höfundur
Mikael Torfason
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Skáldsögur

Úr Sögu af stúlku:

Tvö hjörtu sem elska í blíðu og stríðu

Konan á móti henni horfir skringilega á hana.
 Auður snýr sér undan. Tíkin krosslagði fæturna beint upp í opið geðið á henni. Eins og Auður hefði ætlað að stökkva á hana og grípa í píkuna á henni. Það hafði sést í hvítar nærbuxur undir pilsi konunnar. Pilsið er ljósgrátt, sokkabuxurnar dökkar og jakkinn í þykkara lagi. Auður sér ekki í hverju konan er undir jakkanum. Virðir bara fyrir sér kringlott andlit og uppbrett nef. Jú, og konan er frekar vandræðaleg og svipurinn eins og á kvígu.
 Auður ímyndar sér að tíkin sé með leghálskrabbamein. Gott á hana. Lífið stefnir ekki rassgat á fullkomnun. Lífið er í raun í þversögn við sjálft sig. Ef hún er bara kjöt og bein á hún ekki að vera lifandi frekar en stóllinn sem hún situr í þarna. Lífið er í algerri þversögn við heiminn.
 Konan tekur upp tímarit. Eldgamalt tímarit með mynd af þjóðþekktum presti á forsíðu. Prestar, hugsar Auður með sér og minnist fermingarinnar. Best hefði verið ef fjandans presturinn hefði haft það í sér að ríða henni. Þá væri lífið ekki eins flókið og það er í dag. Prestar myndu gegna raunverulegri og nauðsynlegri samfélagsskyldu. Létu eitt ganga yfir sóknarbörnin í heild sinni. Riðu þeim öllum. Afmeyjun af presti í stað fermingar myndi auðvelda ungum konum að fóta sig í tilverunni. Ekkert vesen. Bara ábyrgðarfull afmeyjun og þar við sæti.
 Auður finnur sér nýlegt tímarit. Förðuð fyrirsæta með litað hár prýðir forsíðuna. Hún flettir blaðinu. Myndirnar gefa allar í skyn að um karlablað sé að ræða. Ekkert nema myndir af fáklæddu og fallegu kvenfólki. En ef greinarnar og höfundar þeirra eru skoðaðar nánar kemur í ljós að um kvennablað er að ræða. Mikið rætt um ofurkonur, hárgreiðslur fræga fólksins og hverjar þeirra séu inn í dag. Við lestur blaðsins fær Auður það ekki á tilfinninguna að hún sé að lifa síðustu daga tuttugustu aldar. Nei, það verður skammhlaup í heila hennar og hún finnur fyrir hárskotti níunda áratugarins. Bleikar grifflur og sjálflýsandi ennisbönd. Ekkert nema kaup á því sem er móðins og öllum líður vel. Fyrir fáeinum árum hefði þetta blað verið hlaðið viðtölum við atvinnulausar konur; atvinnuátök kvenna og ástandið túlkað með klisjukenndum viðtölum. En á einni nóttu umturnaðist heimurinn og allir búnir að gleyma viðtali við fimmtuga konu sem atvinnuleysið kippti fótunum undan. Nú er allt búið. Ekki fleiri greinar um bitrar og þurrkuntulegar húsmæður. Í dag eru eingöngu til ofurkonur sem reyna allt sem þær geta til að fá sem mest út úr hverjum drætti. Lofa sjálfsálitinu að blómstra með klónuðu barni sem breytir brjóstunum á þeim ekki í þvottapoka og ...

(s. 81 - 82)

Fleira eftir sama höfund

Bróðir minn og bróðir hans

Lesa meira

Verdens værste far

Lesa meira

Maailman tyhmin isä

Lesa meira

Bréf til mömmu

Lesa meira

Síðustu dagar Kjarvals

Lesa meira

Harmsaga

Lesa meira

Hinn fullkomni maður

Lesa meira