Beint í efni

Strokubörnin á Skuggaskeri

Strokubörnin á Skuggaskeri
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Barnabækur


Af kápu:



Einu sinni voru Austurhlíð og Vesturhlíð friðsæl þorp þar sem gott var að búa. En nú er skollið á stríð og fullorðna fólkið allt orðið stórskrítið. Þess vegna ákveða systkinin Lína og Hringur að flýja að heiman á Happadísinni, heimasmíðaða bátnum sínum. Áfangastaðurinn er Skuggasker – draugalega eyjan úti við sjóndeildarhring sem allir eru hræddir við.



Úr Strokubörnunum á Skuggaskeri:



Í Fagradal standa tvö allstór þorp hvort á sínum árbakkanum. Þau heita Vesturhlíð og Austurhlíð.



Fjölskylda Hrings og Línu hefur átt heima á vestari bakkanum frá því elstu menn muna. Fólkið sem býr á eystri bakka árinnar hefur líka átt heima þar lengi, lengi. Samskiptin milli fólksins í þorpunum tveimur voru vinsamleg og góð og í sameiningu byggðu þau stórglæsilega brú yfir ána. Efitr það var miklu auðveldara að skiptast á varningi og eiga ýmiss konar samskipti.



Í Vesturhlíð var blómlegur matvælaiðnaður. Þar voru til dæmis framleiddir gómsætir geitarostar og hænurnar þar verptu sérdeilis kraftmiklum og bragðgóðum eggjum. Íbúar Austurhlíðar sérhæfðu sig hins vegar í að búa til dáindis falleg föt úr ull og skó úr leðri. Menn gátu því skipst á varningi og allir voru glaðir og ánægðir. Fullorðna fólkið heimsótti hvert annað og það var talsverð umferð yfir brúna því menn fóru oft á tónleika og sýningar hjá nágrönnunum. Krakkarnir hlupu eða hjóluðu yfir brúna til að leika við þá sem bjuggu hinum megin.



Bestu vinir Hrings og Línu voru systkinin Reynir og Björk í Austurhlíð. Þau brölluðu ýmislegt skemmtilegt saman, fóru í ævintýraleiki og busluðu í ánni á góðviðrisdögum.



Lífið var sannarlega dásamlegt!



En svo breyttist allt!



Skyndilega upphófust gríðarlegar deilur í Fagradal. Deilurnar snerust um Hólmann sem er úti í miðri ánni. Reyndar búa víst einhverjar hræður þar en það fólk er fátækara en aðrir íbúar Fagradals og hefur nær engin samskipti við hina. Þau eiga víst ekkert sem aðra langar í og heldur ekki neina peninga til að kaupa fyrir geitarost eða egg, föt eða skó af fólkinu í Vesturhlíð og Austurhlíð.



Vandræðin upphófust dag nokkurn þegar hópur vísindamanna kom í dalinn. Þeir höfðu meðferðis alls konar flókin og skringileg mælitæki sem þeir fóru með um allan dal. Íbúarnir fylgdust forvitnir með og brátt fór að kvisast út, bæði í Austurhlíð og Vesturhlíð, að vísindamenninrnir hefðu uppgötvað dýrmæta auðlind úti í Hólmanum í miðri ánni. Að þar væri í jörðinni afar sjaldgæfur og verðmætur málmur sem er eftirsóttur út um allan heim og mikilvægur við framleiðslu á alls kyns dýrum tæknivarningi sem allir vilja eiga.



Þá var friðurinn úti!



(15-6)


Fleira eftir sama höfund

Teitur í heimi gulu dýranna

Lesa meira

Jólakrakkar

Lesa meira

Eyja glerfisksins

Lesa meira

Týndu augun

Lesa meira

Eins og í sögu

Lesa meira

Kynlegur kvistur á grænni grein

Lesa meira

Langafi drullumallar

Lesa meira

Beinagrindin

Lesa meira

Allt í plati

Lesa meira