Beint í efni

Allt annað líf

Allt annað líf
Höfundur
Gunnhildur Hrólfsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Barnabækur

Af bókarkápu:

Katla ræður sig sem barnfóstru vestur í Stykkishólm. Þar kynnist hún brátt undarlegri stelpu og ömmu hennar sem er ekki öll þar sem hún er séð. Katla sogast inn í dularfulla atburðarás þar sem klaustrið á Helgafelli kemur við sögu. Hún verður að sýna hvað í henni býr ef ekki á illa að fara og takast á hendur ferð sem enginn veit hvaða afleiðingar getur haft.

Úr Allt annað líf:

- Hvað gerum við? Báturinn var farinn að skoppa á öldunum og dýpið milli klettanna virtist nokkuð.
- Sætum lagi. Þorvaldur hallaði undir flatt. Þegar hann gaf merki skelltu þau árunum í sjóinn og tóku á. Kötlu létti þegar þau voru komin inn fyrir rifið og aðeins nokkrir metrar að landi. Hún farin að hlakka til að hvíla sig, rétta úr bakinu og teygja á fingrunum þegar báturinn tók skyndilega niðri og hvofldi og hún fór á bólakaf. Þari kræktist um ökkla hennar og hún horfðist í augu við skelkaðan krabba áður en hún greip til sundtakanna og skaust upp á yfirborðið. Hún sogaði loftið ákaft ofan í lungun, tróð marvaðann og skimaði eftir Þorvaldi. Þykkt pilsið þvældist um fætur hennar og hún hóstaði þegar hún saup sjó. Hvar var hann?
Drottinn minn, hann er ósyndur! flaug gegnum huga hennar. Hún togaði upp um sig pilsið og varð það eitt til ráðs að bíta í það til að halda því föstu. Svo dró hún djúpt andann og kafaði. Hún sá hann strax.
Kaðalhönkin sem hann var með á öxlinni hafði krækst í klettanibbu og þar var hann fastur. Henni tókst að losa böndin af steininum, tók í treyju hans og neytti allra krafta til að ná upp á yfirborðið. Hún svamlaði að landi, en Þorvaldur var þungur og erfitt að halda höfði hans upp úr. Hún skreið á hnjánum upp í sandinn og dröslaði hreyfingarlausum líkamanum á þurrt. Másandi og blásandi velti hún honum á grúfu og sló á bakið á honum. Svo sneri hún honum við og smeygði fingrinum upp í hann. Hún fann þaralufsu og hafði hraðar hendur við að draga hana upp úr honum. Án þess að hugsa sig um lagði hún varir sínar að hans og hóf að blása. Henni létti mikið þegar hann byrjaði að hósta og kúgast og loksins opnaði hann augun og starði á andlit hennar rétt við sitt. Hún strauk sandinn af enni hans, var ekki í rónni fyrr en hann reyndi að brölta á fætur.

(s. 94-5)

Fleira eftir sama höfund

Komdu að kyssa

Lesa meira

Spor í rétta átt

Lesa meira

Þegar stórt er spurt...

Lesa meira

Það sem enginn sér

Lesa meira

Ránið

Lesa meira

Rödd í síma

Lesa meira

Nú er kerlu minni skemmt

Lesa meira

Gulllykillinn

Lesa meira

Hér á reiki

Lesa meira