Beint í efni

Ránið

Ránið
Höfundur
Gunnhildur Hrólfsdóttir
Útgefandi
Frum
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur

Þriðja bókin um Kötlu.

Úr Ráninu:

7. kafli

Í grasinu lá afhöggvin hönd. Þegar hún gat slitið augun af hryllingnum og litið til hliðar sá hún lík karlmanns á grúfu. Og hún sá annað sem var jafnvel enn skelfilegra, það voru fætur manns, klæddar víðum línbuxum, berir fætur í rauðum ilskóm. Þarna stóð hann með hendur á mjöðmum og horfði glottandi niður til hennar. Hann vissi sem var að hún kæmist ekki neitt og naut þess að leika sér að henni eins og köttur að mús. Galopnum augum starði hún á andlit hans. Augun svört, andlitið rúnum rist, munnurinn skældur í glotti og stórar tennurnar svartar upp við þrútið tannholdið.

Um leið og hún hreyfði sig, beygði hann sig niður og læsti fingrunum um öxl hennar. Takið var svo fast að hún gat sig ekki hreyft. Hann dró hana á fætur og virti hana fyrir sér ágengum augum. Ó, nei. Katla bað til Guðs að henni yrði ekki nauðgað. Hún hafði séð aðfarirnar við kvenfólkið í eynni. En, hann hratt henni af stað með orðaflaumi sem hún botnaði ekkert í og rak byssu í bakið á henni. Hún nötraði af hræðslu, en svo rann upp fyrir henni ljós. Hún var ekki í hefðbundnum kvenklæðnaði og hann dró þá ályktun að hún væri strákur. Hún laumaðist til að hneppa að sér gallajakkanum, en hann varð þess var og sló hana með byssuskeftinu. Sársaukinn var svo mikill að hún brast í grát og tárin runnu saman við blóðið á kinn hennar.

Aftur fékk hún byssuskeftið í sig og nú í bakið svo hún hnaut við en fékk spark, staulaðist á fætur og hraktist á undan ræningjunum. Útundan sér heyrði hún skothvelli, heyrði skelfingaróp og þegar hún leit til hliðar sá hún mann falla niður úr fiskbyrgi í berginu við Herjólfsdal.

Fólki var smalað eins og fé á leið til slátrunar í átt til hafnarinnar. Örvæntingarfull reyndi hún að hugsa upp einhverja undankomuleið. Það bliknaði á sverð og skothvellir blönduðust ópum og kveinum fólksins. Veinandi börn, farlama gamalmenni, allir höktu sömu leið eftir moldarslóðunum, biðjandi fyrir sér. Katla þorði ekki einu sinni að strjúka blóðið sem rann niður vanga hennar og háls af ótta við fleiri högg. Hún hafði aðeins ætlað að gægjast til fortíðar, ekki lenda í atburðarásinni miðri.

(66-7)

Fleira eftir sama höfund

Komdu að kyssa

Lesa meira

Spor í rétta átt

Lesa meira

Allt annað líf

Lesa meira

Þegar stórt er spurt...

Lesa meira

Það sem enginn sér

Lesa meira

Rödd í síma

Lesa meira

Nú er kerlu minni skemmt

Lesa meira

Gulllykillinn

Lesa meira

Hér á reiki

Lesa meira