Beint í efni

Markús Árelíus hrökklast að heiman

Markús Árelíus hrökklast að heiman
Höfundur
Helgi Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Barnabækur

Myndir: Ólafur Pétursson.

Úr Markús Árelíus hrökklast að heiman:

  Ég skokkaði af stað, en fór ekki götuna eins og ég var vanur, heldur bak við húsin þar sem lítið bar á mér. Villikettir fara ekki alfaraleiðir.
 ,,Farðu þér nú ekki að voða, greyið mitt, kallaði Pétur á eftir mér. Ég svaraði honum engu en tók á rás niður á bryggju.
 Þegar ég kom niðureftir bar vel í veiði. Tveir strákar stóðu fremst á bryggjunni með veiðistengur og voru búnir að fá nokkra fiska. Þeir tóku ekki eftir því að ég laumaðist að fiskahrúgunni sem var fyrir aftan þá og krækti mér í einn. En því miður voru fleiri en ég í fæðuleit á sama tíma. Skammt frá sat stærðar mávur og ekki langt undan voru margir aðrir mávar. Ég kannaðist við þessa fugla, þeir eru svakalega gráðugir. Ef þeir ná í fisk fljúga þeir með hann út á sjó og gæða sér á honum þar. Mávurinn gerði sig líklegan til að ræna mig fiskinum en ég var eldsnöggur og hrakti hann á brott. Hann flaug upp í loftið en ég stjáklaði í kring um fiskinn, alsæll yfir að fá nú vel útilátna máltíð í fyrst sinn eftir að ég varð villiköttur.
 Fiskur sem ekki er búið að skera í sundur getur verið erfiður viðfangs, sérstaklega þegar hann er blautur og sleipur upp úr sjónum. Þetta fékk ég að reyna með hörmulegum afleiðingum. Fiskurinn rann undan mér og ég náði ekki almennilega taki á honum fyrr en hann var kominn upp að stórri spýtu sem lá eftir endilangri brúninni á bryggjunni. Mávurinn fylgdist vel með því sem ég var að gera og beið færis. Hann starði stöðugt á mig og mér var ljóst að ef ég sleppti taki á fiskinum eitt augnablik myndi mávurinn nota tækifærið og hafa hann á brott með sér.
 Ég stökk eldsnöggt í átt að fuglinum. Hann lét sér fátt um finnast, flaug stuttan spöl út yfir sjóinn, kom undireins aftur og settist þá hinum megin við mig. Annar mávur var kominn í spilið og tyllti sér þar sem hinn var áður. Það var ekki um annað að gera en snúa sér að fiskinum og reyna að láta mávana afskiptalausa.
 Mér tókst ekki að leiða fuglana hjá mér. Þeir nálguðust mig í stuttum hoppum sinn frá hvorri hlið. Ég stökk í áttina að öðrum en þá gerði hinn sér lítið fyrir og settist hjá fiskinum mínum. Þegar ég sneri mér við var hann kominn á loft með fiskinn í nefinu. Ég sveif í risastóru stökki á fuglinn og fiskinn, en misreiknaði mig, náði rétt að krækja klónni í fiskinn en flaug fram af bryggjunni um leið og lenti í ísköldum sjónum.
 Fyrst fór ég á bólakaf og hélt um leið að ég myndi deyja. Mér skaut upp aftur, en sá ekki neitt og sveið í augun um leið og ég opnaði þau. Ég greip sundtökin og tókst að halda höfðinu upp úr sjónum. Ég hafði aldrei synt fyrr á ævinni og vissi ekki einu sinni að ég gæti það. Kuldinn, sem sótti að mér um leið og ég kom í sjóinn, minnkaði lítilega þegar ég fór að synda. Mér fannst ég heyra óp í strákunum, opnaði augun en sá ekkert nema sjó allt í kring um mig og hélt að ég væri á leiðinni til þeirra en smátt og smátt dóu hljóðin út. Ég hélt áfram að synda. Kuldinn kom aftur. Ég synti, varð lúinn og vissi svo ekkert meir.
 
(s. 44-47)

Fleira eftir sama höfund

Ef félagseining stendur sterk: Trésmiðafélag Akureyrar - Félag byggingamanna Eyjafirði 100 ára

Lesa meira

Koma þeir heim úr kaffi í sumar?

Lesa meira

Markús Árelíus

Lesa meira

Markús Árelíus flytur suður

Lesa meira

Marsibil

Lesa meira

Markús Árelíus

Lesa meira

Til baka: Sannsöguleg skáldsaga

Lesa meira

Þeir máluðu bæinn rauðan: saga vinstrihreyfingarinnar á Norðfirði

Lesa meira

Með framtíðina að vopni: hreyfing iðnnema - nám og lífskjör í 100 ár

Lesa meira