Beint í efni

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur

Saga eftirlifenda: Höður og Baldur
Höfundur
Emil Hjörvar Petersen
Útgefandi
Nykur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Höður og Baldur er fyrsta skáldsagan í þríleiknum Saga eftirlifenda
   Saga eftirlifenda segir frá ásunum sem lifðu af Ragnarök, baráttu þeirra í heimi sem þeir misstu tökin á, og þróun þess heims sem er fullur af undrum og furðum. Þetta er saga þar sem unnið er með hliðstæður í goðsögum, einnig mannkynssögu, trúarbrögð, þjóðsögur, bókmenntir, tungumálið, samtímann, fjölmenningu og fleira.

úr bókinni

Ynging

Í byrjun september árið 2010 eftir síðari Krist, eða sjö þúsund og tíu árum eftir Ragnarök, var enginn viðstaddur til að afhenda æskueplin.
   Höður beit í súrt epli. Að finna safann yngja upp vöðva, húð og líkamsvessa var það eina jákvæða sem hann hafði upplifað síðan hann kom til Íslands. Heil öld hafði liðið frá því að hann steig þar fæti og hann vonaði líkt og áður að sem fæstir myndu taka eftir ferðum sínum. Hann stóð á verönd fyrir utan lítinn einmanalegan kofa, illa byggt afdrep ása sem hafði tekið breytingum í gegnum aldirnar, en var á þessum árum dulbúinn sem ávaxtabúð í kjarna þorps sem bar nafnið Hveragerði. Höður þóttist ekki skuldbundinn neinu nema þessum eina stað.
   Ávaxtabúðin stóð opin og tóm. Eftir stundarörvæntingu, með tilheyrandi þukli, þreifingum og þefi, hafði hann loks fundið stakt epli á gólfinu, þakið klístruðu ryki og dældum. Hann gat ekki vitað nákvæmlega hversu lengi eplið hafði legið þarna. En þó ekki ýkja lengi, enda byrjuðu æskuepli ekki að rotna fyrr en eftir marga áratugi. Á skjön við venjuleg epli urðu þau súrari eftir því hversu lengi þau voru látin standa við stofuhita. Heði þótti þá sjálfgefið að um töluverðan tíma væri að ræða. Það gilti einu, hann varð að yngjast. Á aldarfresti neyddist Höður til að gera sér ferð í hina svokölluðu siðmenningu í þeim tilgangi að viðhalda lífi sínu. Hann datt gjarnan niður á þá skoðun að það væri tilgangslaust, einkum vegna þess að honum fannst hann ekki hafa neitt hlutverk. Þrátt fyrir það gat hann ekki leyft sér að sleppa þessari nauðsynlegu hefð, því hann gerði sér veikar vonir um að kannski yrði þörf fyrir hann einn daginn. Hann yrði þá að vera á lífi. Þar mátti þá greina - neðarlega í huga hans - vott af ábyrgð.
   En það var líka annað sem hann þoldi illa við hina nauðsynlegu yngingarferðir; Höður átti erfitt með að hitta og standa andspænis Nönnu, en venjulega var það hún sem afhenti eplin. Hann hefði ávallt tekið við sínu epli og haldið á brott án frekari samskipta, roðnandi á leiðinni út og með blossandi kjánahroll. Hann vildi sem minnst vita um ferðir hennar og hvar hún hélt sig, þar sem hann bjóst fastlega við því að hún byggi hjá eiginmanni sínum. Það eina sem Höður vildi vita var að hún afhenti eftirlifendum eplin á þessum tiltekna stað, í kofaskriflinu, í hálft ár í senn á hundrað ára fresti. En þetta skýjaða síðdegi fann hann ekki fyrir nærveru Nönnu, hvorki innan búðarinnar né utan. Hann reyndi að halda aftur biturðinni en hún jókst meira við þá áreynslu.
   Höður strauk andlitið. Hægt og þétt afmáðust hrukkurnar og krafturinn innra með honum reis þegar hann geiflaði sig og kreppti hnefana. Honum varð ljóst að hann var í þann mund að ljúka við eplið hjá kofanum en ekki í bakaleiðinni, sem hann hafði ávallt gert. Tortryggni herjaði á og honum varð varð órótt. Hann henti eplaafgöngunum frá sér, lokaði hurðinni og gekk út á malarplanið.
   Á mölinni stóð búlduleitur og þrútinn maður, hallandi sér upp að hvítum pallbíl. Klæddur í köflótta skyrtu, klunnaleg gúmmístígvél og með sóðalega derhúfu á höfði. Sólbrúnn á handleggjum en brenndur á nefi. Hann klóraði sér ótt og títt í tjásulegu yfirvaraskeggi og lagaði derhúfuna þess á milli. Höður þekkti manninn aðeins út frá móðum andardrætti og daufri andremmu.
   Maðurinn spyrnti sér frá bílnum með öðrum fæti þegar hann sá Höð birtast handa runna og trjáa.

(7-9)

Fleira eftir sama höfund

dauðaleit

Dauðaleit

Unglingsstúlka hverfur í undirgöngunum í Hamraborg í Kópavogi og það er eins og jörðin hafi gleypt hana
Lesa meira
hælið

Hælið

Saga sem fer á flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu
Lesa meira

Víghólar

Lesa meira

Ætar kökuskreytingar

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Níðhöggur

Lesa meira

Nornasveimur

Lesa meira

Lísítsja

Lesa meira

Saga eftirlifenda: Heljarþröm

Lesa meira

Gárungagap

Lesa meira