Beint í efni

Skólaslit

Skólaslit
Höfundur
Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur

Ari H.G. Yates myndlýsti

Um bókina

Skólaslit er hrollvekja eftir Ævar Þór Benediktsson. Sagan birtist fyrst sem ógnvekjandi hrekkjavökudagatal en kemur nú út í bókarformi – lengri og ógeðslegri en áður – með myndlýsingum eftir Ara H.G. Yates.

Það er 31. október. Hrekkjavaka. Allir veggir skólans eru þaktir skrauti sem vekur hroll og kitlar ótta. Í fjarska ómar ómennskt öskur. Á gólfinu má sjá hálfan íþróttakennara og handan við hornið heyrist í draghöltum uppvakningaher. Hvað í ósköpunum gerðist? Og hvernig geta krakkarnir sem enn eru ekki orðnir að skrímslum komist lifandi út úr skólanum?

Verkefnið Skólaslit hlaut Vorvinda-viðurkenningu IBBY, Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar og var tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Úr bókinni

Unnar skólastjóri, eða það sem einu sinni var Unnar skólastjóri, stendur við dyrnar að kennarastofunni og starir á krakkana. Þeir standa skelfingu lostnir á víð og dreif um herbergið. Uppvakningurinn dregur djúpt að sér andann og dökkt slef lekur milli vara hans. Enginn hreyfir sig.
   Skrímslið urrar lágt.
   Það smjattar.
   Æsa stendur grafkyrr í miðri kennarastofunni og finnur hvernig kunnuglegur pirringur byrjar að heltaka hana.
   Hún nennir þessu kjaftæði ekki.
   Hún þurfti ekki einu sinni að vera í þessum aukatíma!
   Og auk þess var búið að lofa henni öryggisherbergi!
   Enn stendur gríðarstór uppvakningurinn í dyragættinni og starir. Augun verða sífellt meira sjálflýsandi og æðarnar í sýktu hendinni eru orðnar enn dekkri. Hin höndin á Unnari er enn nokkuð heilbrigð á að líta, þótt Æsa sjái samt glitta í svartar æðar sem hægt en örugglega læðast niður eftir fölum handleggnum.
   "Við verðum að gera eitthvað!" hugsar Æsa.
   Út undan sér tekur hún eftir einhverju á gólfinu. Ofurvarlega laumast hún til að líta í áttina að því og andvarpar þegar hún sér að þetta er ekkert gagnlegt. Þetta er bara bakkelsið sem hafði verið á stóra borðinu. Vínarbrauð, nokkrir ostar, kleinuhringir, súrdeigsbrauð og ...
   Hjartað í Æsu tekur aukaslag.
   Langur brauðhnífur liggur skammt frá borðinu.
   Hann er beittur.
   Æsa lítur aftur á skólastjórann og augun nema staðar við hálftugginn handlegginn.
   Hún dregur andann djúpt og tekur ákvörðun.
   Það var búið að lofa öryggisherbergi.
   Til að komast þangað inn þarf fingrafar Unnars.
   Enginn sagði neitt um að höndin á Unnari þyrfti að vera föst við líkamann á honum til að það gengi upp.

(s. 74-75)

Fleira eftir sama höfund

Stórhættulega stafrófið

Lesa meira

Þín eigin hrollvekja

Lesa meira

Þitt eigið ævintýri

Lesa meira

Þitt eigið tímaferðalag

Lesa meira

Þín eigin þjóðsaga

Lesa meira

Þín eigin undirdjúp

Lesa meira

Þinn eigin tölvuleikur

Lesa meira

Þín eigin goðsaga

Lesa meira

Þín eigin saga: Búkolla

Lesa meira