Beint í efni

Feigð

Feigð
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Lögreglumaðurinn Hörður Grímsson situr í ómerktum bíl fyrir utan Litla-Hraun og bíður. Hann er heljarmenni að burðum, einrænn og skyggn, og feigðin kallar að honum úr öllum áttum – hann hefur komist af úr sjávarháska og hinu mannskæða snjóflóði á Súðavík og á hverjum degi berst hann við fortíðardrauga. En hann vill gera heiminn örlítið bærilegri, hvað sem það kostar.
Rammgert fangelsishliðið opnast og út gengur óvinurinn, dópsalinn, steratröllið og undirheimahrottinn Símon Örn Rekoja. Það stefnir í æsispennandi uppgjör milli þeirra þar sem átökin berast milli Reykjavíkur og Vestfjarða.


Úr Feigð:

 Bíllinn er Chevrolet Chevell SS árgerð 1969, tveggja dyra tryllitæki með krómuðu grilli, krómuðum stuðurum, krómuðum felgum og breiðum dekkjum, sægrænn og sanseraður með dökkgræna vínyl-klæðningu á þakinu. Vélin er átta strokka og fjögur hundruð tuttugu og sjö kúbiktommur að rúmtaki, fjögurra bolta big-bolt-skrímsli með stórum fjögurra hólfa blöndungi, samtals fjögur hundruð tuttugu og fimm hestöfl út í afturhjólin, takk fyrir kærlega.
 SS stendur fyrri Super Sport, eins og stoltur eigandinn þreytist ekki að tönnlast á. Hann gengur einn hring um bílinn og dustar rykkorn hér og þar af glansandi krómi, gljábónuðu lakki og tandurhreinum vínyl áður en hann opnar dyrnar bílstjóramegin og sest undir stýri. Hurðin er stór, þykk og þung, og hún sígur aðeins niður á við þegar dyrnar eru opnaðar upp á gátt því sterkbyggðar hjarirnar eur orðnar talsvert slitnar eftir að hafa þjónað sínu hlutverki í rúman aldarfjórðung. Bíllinn vaggar lítið eitt. Hörður skellir á eftir sér og handskrúfar síðan niður hliðarrúðuna því það er funheitt inni í bílnum. Svart leðrið á bílstjórasætinu er bæði upplitað og slitið, en það brakar ennþá í því og litinn má lífga með feiti. Í baksýnisspeglinum hangir nýlegt ilmspjald sem nær ekki að yfirgnæfa þunga teppa-, tóbaks- og ryklyktina sem liggur yfir öllu í bílnum, í bland við fúkka og daufa bensínstybbu.
 „Varstu orðinn leiður á að bíða, karlinn?“ Hörður klappar með lófa hægri handar ofan á mælaborðið, eins og hann sé að gæla við reiðskjóta af holdi og blóði. Síðan setur hann upp sólgleraugu, geispar, stígur fast á bremsuna og snýr lyklinum í svissinum. Það heyrist eitthvað sem líkist þurrum málmhósta, síðan hrekkur vélin í gang með tilheyrandi látum, hávært urrið hækkar og lækkar, bíllinn rís og hnígur eins og bátur bundinn við bryggju og tvöfalt púströrið blæs frá sér svörtum reykjarmekki sem verður smám saman dökkblár og að lokum grár. Undir húddlokinu ganga strokkarnir átta í takt og senda frá sér þung högg sem líkjast trommuslætti villimanna í dimmum frumskógi:
 Bromm, bromm, bromm, bromm, bromm ...
 Þessar trommur eru slegnar til heiðurs eldguðinum mikla sem býr í járnmusteri og krefst þess að fá bensín að drekka, því meira, þeim mun betra, og þegar guðinum er svalað og bensínið flæðir í gusum yfir altari hans, þá öskrar eldguðinn og öskrið er hátt, kraftmikið og skelfilegt, í senn þrungið ofsareiði og dýrslegri gleði.
 Þvílíkt afl, þvílík vél! Hörður hættir að geispa og brosir út að eyrum, setur sjálfskiptinguna í bakkgír, sleppir bremsunni varlega, en snertir ekki bensíngjöfina. Bíllinn rykkir sér af stað, reynir að rífa sig lausan og hleypa hestastóðinu á skeið, en Hörður er við öllu búinn, hann sleppir bremsunni aldrei alveg, bakkar af öryggi og stýrir flekanum lipurlega út á bryggjuplanið.

(s. 91-92)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira