Beint í efni

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Óframfærinn rithöfundur vopnaður gamaldags ritvél berst við handrit að sinni fyrstu skáldsögu, á milli þess sem hann langar í meira kaffi. 

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins. 

Ferðalög um hverfandi ísbreiður og hvítar auðar blaðsíður leiða þau saman. 

Ástin á tímum hamfarahlýnunar.  

Úr bókinni

Ómar stokkar blöðin saman og stingur þeim ofan í dökkbrúna leðurtösku með koparlæsingum. Hann klæðir sig í þunnan svartan frakka og támjóa blankskó, opnar fram á pallinn og gengur niður brattan tréstiga sem brakar í. Niðri liggur gluggapóstur undir bréfalúgunni, eins og fallin laufblöð af skuldatré. Hann sópar honum burt með öðrum fætinum, opnar síðan út á steintröppurnar sem snúa að götunni. 

   Hann gengur Öldugötu til austurs, í áttina að konungsríki hinnar rísandi sólar, miðbænum. Til beggja handa eru falleg steinhús frá árunum eftir seinna stríð og í görðunum standa gömul tré með sál og söguna skrifaða í börkinn. Gatan er sú fegursta í borginni, á landinu öllu, að hans mati. Hann flýtir sér aldrei eftir henni, þvert á móti, ekki einu sinni í roki og rigningu eða hríðarbyl. Hann gengur eins hægt og hann kemst upp með. Ef hann færi hægar gæti hann breyst í styttu eða skotið rótum. Úti er milt veður, hvorki sumar né haust - sólin skín en er frekar dauf enda ekki hátt á lofti, himinninn er heiður en ekki fullbjartur, hitinn notalegur en á rólegri niðurleið. Lauf trjánna eru enn ekki byrjuð að gulna en þau eru heldur ekki að vaxa. Fuglarnir syngja á milli þess sem þeir safna vetrarforða og í söngnum er eilítill tregi. 

   Hann heldur á töskunni, röltir áfram, hummar eitthvað sem kannski er brot úr einhverju lagi og lætur sem hann sé ekki að hugsa um hana. Um það hvort hún sé á vaktinni. Um tindrandi augun í henni, um brosið sem sendir frá sér hitageisla eins og rafmagnsofn og seiðandi röddina sem er hvorki djúp né björt en samt hvort tveggja. 

   Hún er búin að vinna á eftirlætiskaffihúsinu hans í rúma tvo mánuði en hann veit samt ekki hvað hún heitir eða hvaðan hún kemur. Hún er ekki íslensk, svo mikið veit hann, en hún talar alveg ágæta íslensku. 

   Hún birtist bara einn daginn, og þá upplifði hann mjög sterkt endurlit, eins og leiðir þeirra hefðu legið saman einhvern tíma áður. 

   Hún hefur afgreitt hann ótal sinnum, hann hefur margsinnis horft sem snöggvast í augu hennar og fengið samtímis rafstuð í bakheilann. Hann hefur rétt henni greiðsluna og tekið við afganginum, tautað gjörðu svo vel og takk fyrir og svo framvegis. En hann hefur aldrei átt í alvörusamskiptum við hana. Aldrei spurt hana að einu eða neinu. 

   Hann hefur aldrei gert sér far um að kynnast henni. Og líklega mun hann aldrei gera það. Honum finnst alveg nóg að hafa hana þarna. Að vita af henni. Að eiga við hana þessi stöðluðu samskipti. Gjóa augunum í áttina að henni. Að vera pínu skotinn. Að hugsa um hana. Að krydda aðeins hversdaginn og tilbreytingarleysið með því að láta sig dreyma. 

   Hann gengur niður Grjótagötu - hjartað byrjar að slá hraðar. Hann skýst yfir Aðalstræti - og þornar um leið í munninum. Hann stígur inn á kaffihúsið - og linast samtímis í hnjánum.

(bls. 44-46)  

Fleira eftir sama höfund

Úlfshjarta

Lesa meira

Svartur á leik

Lesa meira

Neðanjarðarljóð

Lesa meira

Túristi

Lesa meira

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira