Beint í efni

Stefán Máni

Æviágrip

Stefán Máni fæddist í Reykjavík 3. júní 1970. Hann ólst upp í Ólafsvík og bjó þar fram yfir tvítugt. Hann lauk grunnskólaprófi og hefur síðan stundað almenna verkamannavinnu og unnið þjónustustörf. Þar má telja fiskvinnslu, byggingarvinnu, smíðar, hellu- og pípulagnir, garðyrkju, næturvörslu, ræstingar, bókband, vinnu með unglingum og umönnun geðsjúkra.

Stefán Máni sendi frá sér skáldsöguna Dyrnar á Svörtufjöllum árið 1996 og síðan hafa fjöldamargar skáldsögur fylgt í kjölfarið, síðast Nautið (2015). Hann hefur einnig gefið frá sér tvær unglingabækur, Úlfshjarta (2014) og Nóttin langa (2015). Stefán hefur hlotið Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags í þrígang. Fyrst fyrir Skipið (2007), þá Húsið (2012) og loks fyrir Grimmd (2013). Skipið fékk einnig tilnefningu til Glerlykilsins 2008 en Svartur á leik var tilnefnd til sömu verðlauna 2006. Svartur á leik var kvikmynduð í leikstjórn Óskars Thors Axelssonar og kom út árið 2012.

Skipið hefur komið út í þýðingum í Tyrklandi, Ítalíu, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi.

Stefán Máni býr í Reykjavík.

Forlag: JPV útgáfa.