Beint í efni

Húsið

Húsið
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur

Um Húsið:

Á Þorláksmessu 1979 kemur upp eldur í húsi á hæð innst í Kollafirði. Sjö ára gamall drengur kemst lífs af úr brunanum en foreldrar hans og tvö yngri systkini farast. Drengurinn er minnislaus en fær martraðir um eld, reyk og ógnvænlegan mann með hamar í hendi.

 

Seint í nóvember 2007 er Hörður Grímsson kallaður að húsi í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Í kjallaranum liggur gamall maður í blóði sínu. Flest bendir til þess að um slys sé að ræða en lögreglumaðurinn er á öðru máli.

 

Skömmu síðar flytur fjögurra manna fjölskylda í afskekkt hús í Kollafirði og draugar fortíðar vakna til lífsins ...

 

Úr Húsinu:

 

Teódór gengur út úr höfuðstöðvum Securitas, pírir augun undan sterkri haustsólinni og sest inn í bílinn sinn, silfurgráa, fimm dyra Toyotu Corolla sem hann keypti fyrir tveimur árum á 100% myntkörfuláni sem er fyrir löngu komið í vanskil.

 

Hann lemur í stýrið, stappar í gólfið og bölvar í hljóði, róar sig síðan niður og strýkur svitaperlurnar af sjóðheitu enninu.

 

„Skiptir ekki máli,“ tautar hann og ræsir vélina, setur upp Police-sólgleraugun og klæðir sig í svörtu leðurhanskana. Svo kveikir hann sér í sígarettu og lítur sem snöggvast á klukkuna í mælaborðinu áður en hann stillir baksýnisspegilinn og bakkar út úr stæðinu:

 

14:27

 

Lögreglan verður að bíða. Bréfberinn frá Íslandspósti er venjulega á ferðinni í götunni hans á milli hálfþrjú og þrjú á daginn og Teddi passar vandlega upp á að Anna Björg komist ekki í póstinn.

 

Hann ekur sem leið liggur upp í Breiðholt, halar niður hliðarrúðuna og stingur olnboganum út um gluggann, stillir útvarpið á FM 95,7 og hækkar andlausa danstónlistina í botn, blæs reyk út um nasirnar og trommar með fingrunum á stýrið. Í aftursæti bílsins eru tveir barnastólar og á hliðarrúðunum aftur í eru hálfgegnsæ sólskyggni með sogskálum og teiknimyndafígúrum, Bangsímon farþegamegin og Spiderman bílstjóramegin.

 

Ellefu mínútum síðar leggur hann bílnum í stæði merkt 4.HH framan við stigagang númer 10 við langt, fjögurra hæða fjölbýlishús við Kötlufell í Fellahverfi í Efra-Breiðholti. Hann drepur á vélinni, stígur út úr bílnum, fiskar lyklakippu upp úr hliðarvasa á jakkanum, gengur inn í anddyrið og opnar póstkassa merktan fjórðu hæð til hægri með litlum lykli. Í póstkassanum eru fjölmörg gluggaumslög stíluð á Theódór B. Unnarsson frá Landsbankanum, Íbúðalánasjóði, Intrum, lögfræðingum og fjármögnunarfyrirtækinu Glitni, auk tveggja bréfa til Önnu Bjargar, frá Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalaginu, auglýsingapóstar frá pitsustöðum, barnafatabúðum, Europris og Hagkaup.

 

Hann lokar og læsir póstkassanum, yfirgefur anddyrið, gengur til hægri niður tíu tröppur, opnar dyrnar að ruslakompunni og kveikir ljós. Kompan er mjó, löng og gluggalaus og lyktar af gömlu og nýju sorpi. Á aðra hönd er grár veggur en á hina röð af svörtum ruslatunnum sem sumar eru fullar. Innst er neðsti hluti ruslarennunnar og undir henni tunna sem er löngu orðin full og gott betur. Sá sem á að sjá um kompuna þessa vikuna er greinilega ekki að standa sig í stykkinu.

 

Teddi opnar ruslapoka úr fullri tunnu, treður póstinum sem er merktur honum sjálfum ofan í hann, lokar honum, setur hann aftur í tunnuna og skellir lokinu niður. Síðan slekkur hann ljósið, lokar kompunni á eftir sér og röltir til baka að bílnum með lykt af heimilissorpi annarra í nefinu, viðbjóðsgrettu á andlitinu og restina af póstinum klemmda fasta milli leðurklæddra fingra vinstri handar.

 

„Theódór!“

 

(141-2)

 

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira