Beint í efni

Í skugga drottins

Í skugga drottins
Höfundur
Bjarni Harðarson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Í skugga drottins er söguleg skáldsaga sem segir frá leigulíðum Skálholtsdómstóls á 18. öld.

Við fylgjumst með Maríu, stúlku af Álftanesi sem orðin er húsfreyja á Eiríksbakka, Greipi bónda og Jónunum tveimur sem honum fylgja, að ógleymdum niðursetnignum sem er óguðlega kjaftfor og skemmtinn.

Yfir og allt um kring er þrældómur og guðsótti. Við sögu koma misfrómir guðsmenn, bændur og búalið, skólapiltar, hljóðfæraleikarar, maurapúkar og litskrúðug mannlífsflóra alþýðunnar.

 

úr bókinni

Ég sagði þér nær ég var hér síðast að þú værir mitt sóknarbarn, María.

- Já og ég vona að það hafi ekki breyst.

Séra Hafliði er kominn að vitja um hina nýrefstu konu í Hrosshaga. Nú er kominn bloti og kom raunar sem kallaður þegar konan var losuð úr gapastokk. Hross biskups eru síðan í náðum við Þorlákssæti. En það er óvissara með iðran konunnar, þanka hennar og kristilega meðkenningu synda. 

Þau sitja tvö ein í baðstofunni. Hún hafði nýlega grátið þegar hann kom og vonar nú að svartnætti gærdagsins leiki hana ekki verr en svo að hún komist í gegnum skriftasamtal sitt við séra Hafliða. Í verunni er hún ekki tilbúin að tala um þetta og hefur einsett sér að þegja langleiðina af sér þessa nauðsynlegu samkomu.

- Já, og þar sem þú ert mitt sóknarbarn hafði ég vonað að þú talaðir við mig frekar en að grípa til örþfrifaráða og grýta reiðhesta vors biskups. Ekki ætlaðirðu sjálf að slíkt lægi órefst. 

Konan lýtur höfði og þegir. Hún finnur og veit að ef hún svarar fer kannski engu betur en þegar hún henti hrossataði að monthestum Skálhyltinga. 

- En þá fyrst beistu höfuð af þinni skömm þegar þú í fyrradag ærðist og barðist um á hæl og hnakka heima á Torfastöðum. Þér ber vitaskuld eins og okkur öllum að hlýða sendimönnum biskups. Þeir voru hér ekki til annars komnir en að leggja á þig réttmæta refsingu. Ekki aðeins okkar skikkan til góða heldur og til þess að þú megir fyrir Guði iðrast þinnar illu hegðunar og hljóta hans fyrirgefningu.

Ræða prestsins er lengri en hún er hætt að hlusta. Hún finnur aftur þungann og svartnættið leggjast að sér. Getur verið að hún verði sett í gapastokkinn aftur og svo endurtekið allt þar til hún er orðin hin auðmjúka og þæga?

(s. 176-177)

Fleira eftir sama höfund

Síðustu dagar Skálholts

Lesa meira

Svo skal dansa: skáldsaga úr veruleikanum

Lesa meira

Sigurðar saga fóts: íslensk riddarasaga

Lesa meira

Mensalder

Lesa meira

Mörður

Lesa meira

Í Gullhreppum

Lesa meira

Króníka úr Biskupstungum

Lesa meira