Beint í efni

Síðustu dagar Skálholts

Síðustu dagar Skálholts
Höfundur
Bjarni Harðarson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Síðustu dagar Skálholts segir ósegjanlega sögu af ringulreið við endalok mikilla mektardaga í Sultartungum. Bekkingum skólapilta, lénsveldi Stefánunga, mannfelli förufólks, hinum sannheilaga Eilífagvendi og uppsveitadrjólum sem reyna að koma á byltingu.

Sú barátta lendir þó líkt og allt annað í útideyfu fátækra manna sem lúskrast heim í kot sín. Þegar síðasta standsfólkið er farið er öll saga staðarins fólgin í minni einnar karlægrar soðbúrskerlingar, Katrínar Greipsdóttur, sem skynjar loks að stráin, sem áður rembdust öll við að verða eitthvað meira og stærra, eru aldrei nema strá.

Úr bókinni

Þó svo að öldungurinn Finnur Jónsson hafi beygt jafnt þá dönsku og hreppstjóra Biskupstungna á Alþingi sumarið fyrir í hitteðfyrra og síðan riðið keikur heim að næturþeli þá er þrek hans ekki ódrepandi. Undanfarið hefur öldungurinn ekki verið með vopnum sínum og varpað verkum sínum nær öllum á herðar sonarins sem er allt það vorkunnarlaust. Oftlega er það með harðindum að sá gamli fáist til að heilsa upp á gesti sem koma að finna þá biskupana.
   Þegar Hannes ríður í dag úr hlaði til þess að ganga að eiga þá ungu og föngulegu Þórunni Ólafsdóttur Stephensen situr faðir hans eftir heima. Hann treystir sér ekki að sitja hest langa leið og finnur til kvíða að koma í margmenni. Hann biður fyrir árnaðaróskir og Hannes hugsar til léttis að hann þarf þá ekki að hafa áhyggjur af því þótt stertimennið tengdafaðir hans tali um Kúludalsána. Og kannski er það ósanngjarnt af Hannesi að tala um Ólaf félaga sinn og vin, tengdaföður og velgjörðarmann, sem stertimenni. Í verunni er Ólafur sekreteri svo margt annað einnig og sumt af því gott, annað miður og máske hégómi. En allt sem er stórt við þetta veldi er komið frá konunni Sigríði og áður hennar góða föður, amtmanninum. Húnvetnski strákurinn Óli mest framhleypinn og á köflum ófyrirleitinn strákur.
   Þetta tal um Kúludalsána er verst, svo yfirmáta hégómlegt og fjarstæðukennt að það er hvergi hægt að hafa orð á nema heima á Hólmi þar sem stundum er eins og asklok Máhlíðinga sé himinninn sjálfur. Eða er það ekki syndsamlegt dramblæti að ætla sér að byggja biskupsstofuna upp í eigin túnfæti? Svona eins og biskupssetur landsins sé ekki annað en velviljað og undirsett kot Stórahólms. Það er örugglega rétt að þeir svelta ekki á kotum sekreterans en þeir gjalda það líka dýru verði.
   Um þetta er hann að hugsa og svo brúðina ungu. Eitt sinn hafði Hannesi boðist að eiga móður þessarar stúlku en þá tekið metorð og fremd í Kaupinhafn fram yfir. Sigríður frænka hans var vitaskuld fríð stúlka og auðug. En hvorki þá né nú brennur með Hannesi slíkt óslökkvandi hungur til konu að hann geti ekki þar um tekið flýtilausar ákvarðanir. Hann hafði vitaskuld eins og allir reynt sig við afmorsbrögðin í Kaupinhafn þar sem slíkt var gert að verslunarvöru en aldrei orðið því svo áhangandi að hann þyrfti að láta leggja á sig igður og annan óþverra. Hér heima hafði auðvitað komið fyrir að honum byðust þagmælskar og öruggar ekkjur á hans aldri og því hættulaust. Hann hafði oftast hafnað því enda ekki sæmandi hans standi. Langoftast raunar.
   Hannes er að sönnu ekki sá miðaldalegi meinlætamaður sem faðir hans þótt sumir teldu svo vera. Allt af því að hann var laus við þær illu náttúrur að ráða ekki sínum næturstað þar sem saman komu freistingar víns og kvenna.
   Og það er honum miðaldra karlinum því fráleitt girndarráð að ganga að eiga barnið Þórunni. En Þórunn er sá besti ráðahagur sem fáanlegur er í þessu landi og þá verður það að gilda framar öllu. Hann var því hálfvegis feginn að móðir hennar hafði orðað það við hann með varkárni að það væri gott fyrir stúlkuna að taka út ögn meiri þroska áður en hún færði veröldinni unga biskupssyni og dætur. Það er af sömu tillitssemi sem gifting þeirra Hannesar og Þórunnar er látlaus athöfn. Brúðkaupið átti raunar að vera síðsumars en var svo flýtt um nokkrar vikur að bræður brúðarinnar sem nú eiga fyrir höndum stúderingar við háskólann geti verið nærstaddir. Stúlkan er jú orðin sextán vetra og það er líkast til Hannes einn sem hugsar upp á þann danska móð að telja hana ekki fullra sextán fyrr en náð er hennar fæðingardegi þetta árið. Það er ekki fyrr en þann sjötta júlímánaðar.
   Jú, Ólafur faðir brúðarinnar er líka sigldur og tekur líka eftir þessu en aðrir þekkja ekki þessa dönsku fordild að merkja út föðselsdaga.

(s. 66-68)

 

Fleira eftir sama höfund

Svo skal dansa: skáldsaga úr veruleikanum

Lesa meira

Sigurðar saga fóts: íslensk riddarasaga

Lesa meira

Mensalder

Lesa meira

Mörður

Lesa meira

Í skugga drottins

Lesa meira

Í Gullhreppum

Lesa meira

Króníka úr Biskupstungum

Lesa meira