Beint í efni

Svo skal dansa: skáldsaga úr veruleikanum

Svo skal dansa: skáldsaga úr veruleikanum
Höfundur
Bjarni Harðarson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

Svo skal dansa er skáldsaga um baráttu kvenna, hetjusaga hinna snauðu og ættarsaga hinna ættlausu. Sagan hefst seint á 19. öld í óvenjulegu gistihúsi við hálendisbrúnina rétt hjá Reykjavík og lýkur um hundrað árum síðar í Efstasundinu og Houston í Texas. Þetta er saga syndugra og brotgjarnra alþýðukvenna sem eru hamingjusamar í fátæktinni þrátt fyrir að þær séu sviptar öllu.

Bjarni Harðarson byggir þessa stórbrotnu sögu á harðri en ævintýralegri lífsbaráttu formæðra sinna en allar þurftu þær að yfirgefa börn sín. Hann sýnir hér á sér óvænta hlið í skáldsögu sem er harmræn og gleðileg í senn; heillandi óður til horfinna kvenna.

 

úr bókinni

- Stína mín. Hún Þrúða bíður eftir þér þegar þú kemur til Reykjavíkur. Ef hún verður ekki á bryggjunni þá ertu með heimilisfangið hennar á miðanum sem ég lét þig fá og þú færð einhvern til að fara með þangað. En gefðu þig ekki að hverjum sem er og allra síst drukknum karlmönnum. Þeir eru ekki endilega eins meinlausir þar í sollinum og hér.

- Mm.

- Hún Þrúða ætlar að koma þér í skóla og þetta verður allt í lagi. Ég kem svo og heimsæki þig um leið og ég get og kannski fræðu að koma hingað austur næsta sumar. En mundu það sem ég hef verið að segja þér. Hlýddu henni frænku þinni og settu það ekki fyrir þig þó þér finnist hún ekki skemmtileg. Það er ekki eins og við eigum á öllu völ. Ég var á vergangi í Hafnarfirði á þínum aldri. Fékk að liggja inni í viku og viku í hverju koti. Og lenti svo á aksjón.

- En ég ekki?

- Hvaða vitleysa er í þér, barn. Nei, þú verður ekki boðin upp og ekki á vergangi og ekki á sveitinni af því að þú átt hana Þrúðu að og okkur báðar, og það er meira en við Þrúða áttum á þínum aldri. Mundu það.

- Mmmmm.

Ég var að verða vitlaus á að reyna að tala við þetta barn sem svaraði mér í umli og horfði fjarræn yfir fjörðinn, framhjá póstbátnum. Horfði kannski alls ekki neitt. Ef hún hefði getað grátið eða rifist. Það hefði verið betra.

- Þú ert að verða 14 ára, Stína.

- Mmm.

- Hún Þrúða hjálpar þér en til þess verðurðu að treysta henni og gera eins og hún segir. Ef það kemur aftur blóð á þeru hér aukarýjur í bláu töskunni. Svo ertu með nóg að lesa á leiðinni, ljósið mitt, og ekki ætti að væsa um þig í Reykjavík þar sem bókasöfnin eru. Þrúða ætlar að sjá til þess að þú getir komist á söfnin og í haust athugar hún með skóla fyrir þig.

- Já, mamma. Þú ert búin að segja það. Ég skal reyna að vera almennilega og vertu bless, mamma mín.

Hún kyssti mig örsnöggt á kinnina og allt í einu var barnið mitt orðið eins og fullorðin kona.

Fleira eftir sama höfund

Síðustu dagar Skálholts

Lesa meira

Sigurðar saga fóts: íslensk riddarasaga

Lesa meira

Mensalder

Lesa meira

Mörður

Lesa meira

Í skugga drottins

Lesa meira

Í Gullhreppum

Lesa meira

Króníka úr Biskupstungum

Lesa meira