Beint í efni

Nautið

Nautið
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur

Á rólyndislegum austfirskum sveitabæ gerast skelfilegir atburðir. Með einhverjum hætti tengjast þeir ofsa og persónulegum átökum í undirheimum Reykjavíkur. Fégræðgi og hefndarhugur virðast ráða för.

En þegar kafað er dýpra leynast skuggaleg leyndarmál á hverju strái. Hver er ókunni maðurinn sem situr í fangaklefa á Eskifirði? Hvað varð um Hönnu, sveitastelpuna sem stakk af til Reykjavíkur? Er nautið skepna í mannsmynd eða dýrslegur maður?

Úr bókinni:

Bóndinn er eitthvað að dytta að pallbílnum en ungi maðurinn er á túninu að leika sér við bolakálfinn, eins og daginn áður.

Ríkharður gengur inn á bæjarhlaðið en stoppar þegar hundurinn byrjar að gelta. Geltið er hátt en ekki beinlínis grimmdarlegt. Bóndinn snýr sér snöggt við og mundar stóran skiptilykil eins og barefli. Hann réttir úr breiðu bakinu og virðir gestinn fyri sér með augnaráði sem er langt frá því vinsamlegt. Eitt andartak skín ómengaður ótti úr veðurbörðu andlitinu, svo víkur hann fyrir eðlislægri tortryggni og einhverju sem einfaldlega mætti kalla óvild.

Hundurinn heldur áfram að gelta á miðju hlaðinu. Ríkharður lyftir hendi og brosir afsakandi til bóndans. „Ég ætlaði ekki að láta þér bregða.“

Bóndinn bendir ógnandi á hundinn. „Þegiðu!“

Hundurinn hengir hausinn, ýlfrar lágt og trítlar burt. Ríkharður stendur enn í sömu sporum. Hann tekur eftir því að ungi maðurinn með nautgripinn veitir honum athygli. Bóndinn leggur skiptilykilinn frá sér og tekur upp skítugt handklæði. Hann gengur hægum skrefum að gestinum og nuddar um leið óhreinindi af tröllvöxnum höndunum. „Þér er óhætt að snúa við og láta þig hverfa, félagi. Okkur vantar ekkert og við kaupum ekki neitt.“

Bóndinn er um fimmtugt, rauðhærður og freknóttur með stórt nef, útstæð eyru og þykkar varir. Hann er sólbrenndur og húðin er byrjuð að flagna í hvirflinum þar sem hárið er tekið að þynnast. Augun eru dimm og blóðhlaupin, út úr nösunum stingast brúskar af brúnelitum hárum og tennurnar eru skakkar og illa hirtar.

Ríkharður hristir höfuðið. „Ég er ekki sölumaður.“

„Hver fjandinn ertu þá?“ Röddin er ruddaleg og henni fylgir dauf brennivínsstybba.

Ungi maðurinn hefur orðið gestkomunnar var. Hann teymir nautgripinn hægum skrefum yfir hlaðið, í áttina til þeirra. Hann er í gallabuxum, gúmmískóm og gulum Cheerios-stuttermabol, búinn að troða buxnaskálmunum ofan í gráyrjótta ullarsokka. Hundurinn fylgir honum eins og skuggi.

Ríkharður leggur töskuna frá sér og dregur samanbrotið blað upp úr rassvasa á buxunum. „Ég sá þessa auglýsingu á Eskifirði. Ég er að leita mér að sumarvinnu, sjáðu til.“

Bóndinn stingur tuskunni í vasa á samfestingnum, tekur við blaðinu og brýtur það sundur. „Þú ferð bæjarvillt, félagi. Þetta er auglýsing frá hyskinu á Stóra-Hóli.“

Rikki kinkar kolli. „Þau eru búin að ráða vinnumann. En mér datt í hug að freista gæfunnar hér.“

(65-6)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira