Beint í efni

Kletturinn

Kletturinn
Höfundur
Sverrir Norland
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Kletturinn er skáldsaga um fyrirgefningu, metnað, siðferðileg álitamál og ekki síst tilfinningasambönd karlmanna. 

Tuttugu ár eru liðin frá því að Gúi hrapaði til bana í útilegu í Hvalfirði og síðan hafa félagar hans, Einar og Brynjar, þurft að vinna úr því áfalli, hvor á sinn hátt – en hvorugur með miklum árangri.

Nú liggja leiðir þeirra saman á ný og uppgjörið er óhjákvæmilegt. Hvað gerðist? Hvers vegna? Hvernig? Og hvern mann hafa þeir raunverulega að geyma?

Úr bókinni

Mínútu síðar sat ég í bílnum.
   Rödd Úlfars litla bergmálaði í höfðinu:
   "Hvenær kemurðu aftur, pabbi?"
   Kannski blundar í öllum börnum eitthvert vantraust gagnvart foreldrum sínum, jafnvel ótti um að þeir gufi bara upp?

***

Blá ferðataska í heitu sólskini.
   Blá ferðataska í köldu myrkri.
   Blá ferðataska með bráðnandi snjóflygsum á leðrinu, upplituð af endalausum þvælingi.
   Og upp úr henni streymdu fjöldaframleidd undur kapítalismans: Kool-Aid, Game Boy, Hubba Bubba ...
   Þegar ég hugsa um eigin barnæsku kemur oft upp í hugann bláa ferðataskan hans pabba sem alltaf virtist standa í anddyrinu og bíða þess að hann gripi hana með sér og hyrfi út um dyrnar. Rétt á förum eða nýkominn. Ólíkt Úlfari litla þráði ég alltaf að pabbi faðmaði mig. En hann gerði það sjaldan. Strauk mér bara fjarlægur á svip um hárlubbann og gaf mér gjafir sem hann hafði í rauninni ekki efni á að kaupa.
   En pabbi var líka galdrakarl fullur af ást og undrum. Hann var vanur að segja okkur Sollu systur sögur á kvöldin - um indíána og kúreka, nornir og tröll, dreka og seiðkarla. Við Solla hlökkuðum alltaf svo til og vonuðum að pabbi yrði heima um kvöldmatarleytið. Hann sagði okkur sögur um lítilmagna sem sigruðu heiminn þvert á allar líkur og töfraorðin þrjú löðuðu alltaf fram á varir hans svo fallegan svip; einu sinni var-brosið kölluðum við Solla það.
   Á kvöldin, þegar við lágum undir sæng, voru orðin hans pabba ljós sem lýstu upp myrkrið og fengu andlitið á honum til að ljóma í kvöldrökkrinu.
   En fjarvera pabba var líka oft myrkur sem hvíldi yfir íbúðinni okkar.
   Rétt eins og Úlfar óttaðist ég að einn daginn kæmi pabbi einfaldlega aldrei aftur heim. Það var eitt af yfirvofandi "höggum" barnæskunnar: að ósýnilegu þræðirnir, sem bundu okkur fjölskylduna saman, mundu slitna. Ég veit ekki hvers vegna ég var svo sannfærður um að það hlyti að gerast: á ferðalagi mundi pabbi einfaldlega gleyma að hann ætti fjölskyldu í hrörlegri blokkaríbúð úti við ystu endimörk hins byggilega heims; honum yrði litið sem snöggvast út um flugvélargluggann og hann sæi þar endalausar skýjabreiður sem svo leystust upp eins og fortíð hans.

(s. 39-40)

 

Fleira eftir sama höfund

Með mínum grænu augum

Lesa meira

Suss! Andagyðjan sefur

Lesa meira

Manneskjusafnið (skáldsaga í hæfilegri lengd)

Lesa meira

Erfðaskrá á útdauðu tungumáli (ljóð)

Lesa meira

Heimafólk (sögur)

Lesa meira

Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst (skáldsaga í hæfilegri lengd)

Lesa meira

Kvíðasnillingurinn : skáldsaga í hæfilegri lengd

Lesa meira

Kvíðasnillingarnir

Lesa meira

Fyrir allra augum (skáldsaga)

Lesa meira